Wednesday, December 7, 2011

Jólin nálgast..

Á föstudaginn í síðustu viku var ég búin að vera í Frakklandi í 3 mánuði.. Ég trúi þessu ekki, og 7 mánuðir eftir, núna skil ég hugtakið tíminn flýgur.. Ég tek ekki eftir því hvað hann líður óeðlilega hratt! bara, það er komin mánudagur og svo allt í einu er komið sunnudagskvöld !

Skólinn gengur bara vel... Um daginn var Conseil de Classe, sem er svona hálfgert foreldraviðtal, nema ekki foreldrar.. Bara ALLIR kennararnir manns saman komnir í eitt herbergi og sitja í hálfhring og við nemendurnir inn í hringnum.. Svo vorum við nefnd eitt í einu og kennararnir kommentuðu á okkur hvort við stóðum okkur vel eða ekki.. Gott að það er ekki svona á Íslandi, frekar stressandi.. en þar sem ég er bara íslenski skiptineminn sem skilur ekkert, þá voru þau ekkert vond við mig hehe :) Svo í dag kom svona hálfgert einkunnablað í hús.. Takið eftir að hér er hæsta mögulega einkunn 20 en ekki 10 eins og á Íslandi..
Histoire: 2 (þetta er einkunnin úr einhverju verkefni sem ég misskildi fyrirmælin), Anglais Normal 15, Anglais Renforce 11.4, Litterature Etrange Anglais 15,3 (Svo fékk ég Bravo! fyrir aftan og fékk líka 20/20 í munnlegri kynningu um daginn sem ég var að farast úr stressi út af :D ) Sport 12.5.. Og meðal einkunn- 10.3
Ég er bara sátt hehe :)
Núna erum við hætt í útihlaupi í íþróttum, og byrjuð í Acrogym.. Það reynir ekkert á, en vaknaði með harðsperrur frá helvíti daginn eftir.. Ég reyndi að teygja vel á eftir tímann í dag... sjáum til hvernig ég verð á morgun hehe :)
Ég er búin að finna mér nýjan stað til að vera á... (vá þetta hljómar eins og eitthvað sálarlag !) Þegar ég þarf að bíða lengi eftir bus og kalt er úti, þá skelli ég mér bara á bókasafnið,  Guð hvað ég eeelska það ! Þar eru allar heimsins bækur, helling af tímaritum, helling af plássi til að læra og lesa... Æðislegt !

Eins og ég sagði þá nálgast jólin óðfluga...
Það eru hreint út sagt blendnar tilfinningar í tengslum við það ..
Ég er náttúrulega eitt mesta jólabarn sem fyrirfinnst, þannig auðvitað verða þetta skrýtin jól.. Svo líka ennþá skrýtnara því að hér er grasið enn grænt og fer aldrei niður fyrir frostmark! En hér er allt að jólast smátt og smátt.. En auðvitað engin kósý,rómó, aðventustemming eins og heima, en ég bæti það bara upp með því að horfa á jólaljósin og fá mér mandarínu við hvert tækifæri..
Ég reyni að hugsa sem minnst út í þá staðreynd að ég verði ekki á Krossi með fjölskyldunni minni á aðfangadagskvöld... Ég er ekki með heimþrá, bara svo það sé á hreinu, ég bara á mjög erfitt með að átta mig á því hvernig þetta verður, sérstaklega þegar jólin eru ekki eins mikið mál hér og heima.
Auðvitað er þetta spennandi, þrátt fyrir allt.. Ég er jú hér til að prófa eitthvað nýtt... þannig ég reyni bara að leiða hugan fram hjá því leiðinlega og ýti á *next* þegar Helga Möller syngur "Heima um jólin" og pæli í öllu því framandi og spennandi í sambandi við þetta allt ! Til dæmis er allt morandi í jólamörkuðum hérna.. Einn stór í Arras sem hófst 25.nóv og endar á Aðfangadag, þar smakkaði ég um daginn heitan appelsínusafa með kryddi - jól í glasi!.. Svo eru aðrir litlir um helgar í bæjunum, frekar krúttlegt, Svo er líka skautasvell þar ! Bekkurinn minn er að plana að fara þangað í jólafríinu ..  Svo núna í dag var jólatréð sett upp, thank god að það er lifandi.. veit það er fáránlegt en ég get ekki hugsað mér að hafa gervi jólatré ! finnst það svo ó-jólalegt ! Til að loka þessari jólaumræðu þá ætti ég að horfa í kringum mig og pæla í því hvað ég hef það gott, held jólin hjá góðri fjölskyldu, fæ mat og hlýju, meira bið ég ekki um !

Ég steig á vigtina í fyrsta skipti síðan ég kom um daginn..
- Allt sem ég get sagt er- ég ætla í átak eftir jól.

Í gær gisti ég hjá Mariu vinkonu minni frá Mexíkó sem er með mér í bekk.. Það var nefnilega St. Nicolas.. það er einhver hátíð tileinkuð strákum en líka svona í tengslum við jólin.. Þannig um kvöldið fórum við á einhvern lítinn sætan jólamarkað og á leikrit þar sem við vorum örugglega einu manneskjurnar sem voru yfir 5 ára hehe ! Það var bara gaman..

Svo er ég örugglega að gleyma einhverju sem ég er búin að vera að gera, en ég vil frekar svona segja hvernig mér líður og hvað er að gerast frekar en að lýsa dögunum nákvæmlega.. :)

Randome punktar
* Um daginn fór ég í messu upp á grínið, fyrsti tíminn féll niður og þá var akkúrat messa í kirkjunni rétt hjá skólanum.. Ég ætla ekki að fara að stunda þetta en það var fróðleg upplifun að fara í kaþólska messu..
* Hér eru foreldrarnir farnir að drekka rauðvín á hverju kvöldi, byrjuðu bara allt í einu..drukku aldrei og svo núna alltaf !
* Hér er rigningar rassgat ! ógeðsleg rigning alltaf ! Væri frekar til í smá snjó..
*Já ég fór í klippingu um daginn og klippti hárið stutt.. en þið eruð sjálfsagt flest búin að sjá myndir af því..
* Ég á bara eftir þessa viku og næstu svo JÓLAFRÍ !
* 18.des fer ég til Parísar !! Með Mariu, Dominique og Celine, ætlum á einhverja sýningu í Louvre svo kannski túristast aðeins :)
* Margir segja að tungumálið komi á 3 mánuðum, ég get ekki sagt að það sé þannig hjá mér... Ég nenni ekki að vera að pæla í tíma, ég bara reyni að vera eins dugleg og ég get að læra.. svo kemur þetta bara með tímanum.. :)


Jæja, nú ætla ég bara að fara að jólast og jólast...
Eigið þið friðsama og notalega aðventu elsku vinir, hugsa til ykkar alltaf þegar ég fæ mér mandarínu á meðan ég horfi á jólaljósin í rigningunni :)

Bisous,
Katla

No comments:

Post a Comment